Fréttapistill | 12. mars 2020

Erfiðir dagar

Þetta eru erfiðir dagar, kæru landar. Þá reynir á fólk. Ég þakka framvarðasveitinni í vörn okkar gegn veirunni þeirra góðu störf. Alma landlæknir, Þórólfur sóttvarnalæknir og Víðir yfirlögregluþjónn svara fumlaus öllum spurningum sem brenna á fólki, kynna aðgerðir hverju sinni og á hvaða rökum þær eru reistar. Ég þakka þingheimi fyrir einingarvilja, ríkisstjórn fyrir hennar forystu. En ég þakka sérstaklega starfsliði heilbrigðisþjónustunnar. Á þeim mæðir mikið núna og ugglaust verður álagið meira á næstunni. Í dag flutti ég öllu þessu fólki góðar kveðjur og óskaði þeim velfarnaðar. Sömu ósk færi ég þeim sem sýkst hafa af veirunni og einnig þeim sem sitja í sóttkví af hennar völdum.

Loks færi ég íslenskri þjóð þakkir. Við höfum sýnt í verki stillingu og einhug. Höldum því áfram, ekki síst ef svo fer að brýn viðbrögð gegn vágestinum muni hafa enn meiri áhrif en áður á daglegt líf okkar. Í Hávamálum, okkar ævaforna menningararfi, má finna vísdómsorð um mikilvægi rósemi og raunsæis, hygginda og hugrekkis. Þar segir meðal annars:

Ósvinnur maður
vakir um allar nætur
og hyggur að hvívetna;
þá er móður,
er að morgni kemur,
allt er víl sem var.

Í Hávamálum segir þetta jafnframt um vinskap og traust: „Vin sínum skal maður vinur vera, þeim og þess vin.“ Á ensku eru þessi orð svohljóðandi: „One should be loyal through life to friends.“ Já, stöndum saman, gott fólk.

Hér að neðan er kveðja mín til heilbrigðisfólks okkar í dag:

Ágæta heilbrigðisstarfsfólk.
Mikið hefur mætt á ykkur að undanförnu. Augljóst virðist að álagið mun aukast áður en okkur tekst að vinna bug á kórónuveirunni. Ég þakka ykkur fyrir að standa vaktina með okkur og fyrir okkur. Víðtækar aðgerðir stjórnvalda miða að því að verja líf og heilsu fólks. Allra mestu varðar að hjúkra þeim sem kunna að veikjast mest og þurfa á mestri aðhlynningu að halda. Þar verðið þið áfram í fararbroddi. Ég óska ykkur velfarnaðar þessa erfiðu daga og ítreka þakkir mínar.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar