Fréttapistill | 06. feb. 2022

Land veðra og vinda

Við búum í landi veðra og vinda. Nú er varað við fárviðri og ég hvet fólk til að búa sig undir það, fylgjast með fregnum og leiðbeiningum Almannavarna. Alltaf skiptast á skin og skúrir en í nýliðinni viku dundu yfir áföll sem fylltu þjóðina samúð og sorg, átakanleg banaslys við Laugar og Kirkjubæjarklaustur og flugslys á Þingvallavatni.

Rúmlega þúsund manns tóku þátt í leitinni að hinni týndu flugvél sem reyndist ein umfangsmesta aðgerð af því tagi hin síðari ár. Flest kom fólkið úr björgunarsveitum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg en einnig ber að nefna liðsmenn Landhelgisgæslunnar, lögreglumenn, starfsmenn Isavia og fjölmarga einstaklinga. „Það er einstakt að verða vitni að svona samheldni í samfélaginu,“ sagði einn þeirra sem stýrðu aðgerðum á vettvangi. Undir það skal tekið. Ég þakka öllum sem lögðu sitt af mörkum. Enn erum við minnt á mikilvægi samstöðu og samkenndar í öflugu samfélagi.

Fátt var um embættisstörf í nýliðinni viku. Því réð meðal annars smitgát, sóttkví og einangrun á mínu heimili. Öllum heilsast okkur vel og fyrir hönd fjölskyldunnar þakka ég góðar kveðjur og óskir.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar