Fréttapistill | 04. sep. 2023

Vestfirðir sóttir heim

Um helgina átti ég indæla daga á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar fór ég víða og tók þátt í fjölda viðburða, en naut líka náttúrunnar, til dæmis á Látrabjargi og við Pollinn í Tálknafirði. Svo nýtti ég tækifærið og heimsótti í fyrsta sinn hið einstæða listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal.

Á Patreksfirði fór Forsetahlaupið fram á laugardag. Þrátt fyrir hvassviðrið tók fjöldi fólks þátt og öll skipulagning var til fyrirmyndar. Ég þakka forystusveit heimafólks og Ungmennafélags Íslands kærlega fyrir allan þeirra atbeina. Þá sótti ég fallega stund í Patreksfjarðarkirkju vegna krapaflóðanna sem urðu fjórum að aldurtila í bænum fyrir rúmum 40 árum. Minningarathöfn var haldin fyrr á árinu og var ég á leið á hana með varðskipinu Freyju þegar sinna þurfti kalli um aðstoð á Halamiðum. Það hlaut að ganga fyrir, en mér þótti ánægjulegt að geta átt minningarstund með íbúum núna. Einnig sat ég aðalfund Skógræktarfélags Íslands og óska liðsmönnum þess velfarnaðar á þeim vettvangi. Myndasafn og nánari fregnir af vesturförinni má sjá á vefsíðu forsetaembættisins.

Ég þakka öllum í Vesturbyggð og Tálknafirði fyrir gestrisni þeirra og hlýhug. Margar ljúfar minningar tók ég með mér heim.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 4. september 2023.

  • Á Látrabjargi.
  • Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal í Arnarfirði.
  • Gengið um nýju snjóflóðavarnargarðana fyrir ofan Patreksfjörð.
  • Minningarstund í Patreksfjarðarkirkju vegna krapaflóðanna fyrir 40 árum.
  • Skrímslasafnið á Bíldudal.
  • Með ungmennum við Patreksfjarðarkirkju.
  • Tálknafjarðaskóli heimsóttur. Nemendur kynntu nýsköpunarverkefni.
  • Sjósund í Tálknafirði með Pollavinum.
  • Lögregluvaktin í Vesturbyggð.
  • Forsetahlaupið 2023 ræst á Patreksfirði.
  • Heimsókn á Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í tilefni af 40 ára afmæli safnsins.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar